fimmtudagur, 31. janúar 2008

Læknir með áverka

Ég veit ekki hvað það er en dr. Aðalheiður hefur þau áhrif að ég hlýði mjög oft því sem hún segir. Annars er ég ágæt í því að gera ekkert með það sem fólk segir oft og tíðum. (Nei þetta er ekki stafsetningavilla maður segir oft og tíðum). Stundum kemur það fyrir fólk að það er allt í einu búið að gera eitthvað og það skilur ekki alveg hvernig það gat gerst en það var einmitt þannig að Allý var allt í einu orðinn ræktarfélagi minn. Nú ég hlýði öllu sem hún segir með að gera í ræktinni. Það hafa komið dagar sem ég hef ekki komist í brjóstarhaldara annaðhvort voru það harðsperrur eða strengir. Það hafa líka komið dagar sem ég hef vegið og metið og hent mér niður stigann frekar en að ganga þau skref og svo kom dagur sem ég gat ekki svo mikið sest á klósettið. Í dag voru tímamót þegar hún sagði þetta er það sem við tökum í restina. Ég prófaði og hugsaði mjög hratt á ég að bera fyrir mig hendinni síðan ég endaði út í vegkanti eða hvernig á ég að hafa þetta? Ég sagði þá bara hreint út "Nei Allý, þarna set ég mörkin, þetta geri ég ekki, ég get þetta ekki" Var þá send í eitthvað annað sem ég geri. Hún kemur svo eitthvað og byrjar að kvarta í öxlinni eftir þetta. Ég horfði á hana og brosti og sagði þér var nær. Þegar ég sit svo í tíma í dag fæ ég sms af landspítalanum frá Dr, Allý þar sem hún segir að nú geti ég hlegið að henni eins og ég vilji því hún sé svo illa tognuð á öxlinni og sé bara alveg föst. Ég sendi sms tilbaka og sagði Allý mér dettur ekki í hug að hæðast að þér ef þig vantar ást og umhyggju þá hringirðu. Fékk til bara stutt sms sem í stóð "right". Ég hef ekki heyrt í henni síðan. Hvort ætti ég að sakna hennar í ræktinni í fyrramálið eða njóta frísins?

miðvikudagur, 30. janúar 2008

Nú er ég klæddur og kominn á ról ............

Ok svakalega er eldra fíflið að standa sig í blogginu, en jæja ég sé þá um þetta bara.
Nú Lady virðist vera orðið mikið issue hér á blogginu og þá best að segja frá því að ég fékk fréttir af þessarri elsku sem er annars hress. Söknuðurinn er sár og ástin er mikil en ég get ekki að því gert að allavega söknuðurinn minnkaði þegar fréttirnar voru þær að hún er mikið að fara úr hárum núna. Ég þarf þá ekki sjálf að fara úr hárum við það að svitna á moppunni eða ryksugunni. Valdimar fer annars ekkert svo mikið úr hárum, sérstaklega ekki eftir að pabbi hans skilaði honum krúnurökuðum næstum því á fyrra ári. Mæli reyndar ekki með því aftur en....
Annars hef ég oft fengið það komment að ég sé svo kaldhæðin skil það nú reyndar ekki en ok. Ég er ekki frá því að til sé hins vegar kaldhæðni í hinum stóra heimi. Ég hef semsagt komist á snoðir um það að eins og við vitum þá er borgað fé til þjóðkirkunnar fyrir hvern einstakling sem er skráður í þjóðkirkjuna. Sé einstaklingar í öðru trúfélagi þá rennur féð þangað. Það hafa fundist trúleysingjar í okkar samfélagi, ótrúlegt en satt. Það rennur því ekki fé fyrir þá einstaklinga til þjóðkirkjunnar heldur fer sú upphæð beint til háskólans, ok gott og gilt þangað til nánar tiltekið guðfræðideildar innan háskólans. Ef þetta er satt, er þetta þá kaldhæðni? Nei ég er bara svona að reyna að átta mig á því hvað kaldhæðni er.

laugardagur, 5. janúar 2008

Hæfileikakeppni hunda!!

Frétt:
Hæfileikakeppni hunda fer nú fram í húsnæði B&L að Grjóthálsi í Reykjavík að sögn aðstandenda keppninnar taka um 70 hundar og eigendur þeirra þátt í fjörlegri keppni þar sem hundarnir sýna ýmsar kúnstir. Keppt er í ýmsum flokkum og velur dómnefnd til dæmis þann hund sem þykir líkastur eiganda sínum.

HVAÐ ER AÐ?????????????

ekki það að það var hjónasvipur með okkur Lady eða ég vona það

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Mundi ekki hvernig ég átti að signa mig inn

Allý sagði að ég væri versti bloggari sem til væri, og hún þekkir þá marga sko.
Nú erum við Valdimar búin að vera á Dallas City yfir hátíð ljóss og friðar. Það er bara allt við það sama þar kaupfélagið er þarna og Felix lögga var jólaveinninn á jólaballinu sem lionsklúbburinn hélt. Ég er búin að liggja með ælupesti og vorkenna mér meira en allt og nú er ég að drepast úr kvefi. Þá er líka allt eins og það á að vera. Anna María III er búin að afreka mikið þessi jól. Afrek 1: Hún er búin að setja saman sjóræningjaskip úr lego sem er fyrir 6+!! (mikið afrek fyrir mig). Afrek 2: Kellingin gat tengt playstation 2 tölvuna sem drengurinn fékk í jólagjöf (hver hefði trúað því). Ég vil samt bara að allir viti það að ég gat tengt og græjað tölvuna en ég vil já og jafnvel vill bara að enginn viti það að ég geti aftur á móti ekki fundið út úr leiknum í tölvuna sem er ætlaður fyrir þriggja ára og eldri. Veit einhver hvernig fjólublái drekinn á að opna hliðið? það virðist sko ekki nóg að spúa eldi

Julehilsen
Mæja af Dalvík